Viðmiðunarreglur
um málsmeðferðartíma hjá héraðsdómstólum

 

Þegar dómsmál eru rekin fyrir dómstólum ber að hraða meðferð þeirra svo sem kostur er. Hefur Dómstólaráð ákveðið að setja viðmiðunarreglur á héraðsdómstigi um fresti og viðmið vegna málsmeðferðartíma í einkamálum og sakamálum.

1. gr.
Einkamál

Að því skal stefnt að frestir í einstaka einkamáli verði sem hér segir:
        • máli skal ekki frestað oftar en 2 sinnum á reglulegu dómþingi fyrir stefnda til að leggja fram greinargerð í máli.
        • dómari boði til fyrstu fyrirtöku í máli eigi síðar en 2 vikum eftir úthlutun.
        • máli verði ekki frestað oftar en tvisvar sinnum eftir úthlutun til gagnaöflunar og/eða sáttaumleitana.
        • fari annar hvor aðili fram á að dómkvaddir verði matsmenn í málinu skal lagt fyrir matsmenn að ljúka mati innan 6 vikna frá dómkvaðningu og           leggja fyrir aðila máls að sjá til þess að svo verði.
        • að jafnaði líði að hámarki 4 mánuðir frá fyrstu fyrirtöku í máli eftir að máli hefur verið úthlutað til dómara þar til aðalmeðferð hefst.
        • dragist dómsuppsaga fram yfir 4 vikur skal aðilum fyrirfram gert aðvart um það og boðað hvenær ráðgert sé að dómsuppsaga fari fram.
        • dómari skal tilkynna það til dómstjóra ef dómsuppsaga dregst fram yfir 8 vikur.
        • ágreiningsmálum um forsjá barna eða forjársviptingu skal hraðað sérstaklega.
        • málsmeðferðartími verði að meðaltali innan við 6 mánuðir frá þingfestingu máls til dómsuppsögu.

2. gr.
Sakamál

Að því skal stefnt að frestir í einstaka sakamáli verði sem hér segir:
        • fyrirkall sé gefið út innan 2 vikna frá úthlutun máls.
        • máli verði ekki frestað nema einu sinni fyrir ákærða til að taka ákvörðun um hvort hann haldi uppi vörnum í máli.
        • aðalmeðferð hefjist innan 6 vikna frá þingfestingu máls.
        • sæti ákærði gæsluvarðhaldi er máli er úthlutað er að jafnaði rétt að þingfesta mál innan viku frá úthlutun án útgáfu fyrirkalls. Í því tilfelli skal             að því stefnt að aðalmeðferð fari fram svo fljótt sem kostur er og innan 2 vikna frá úthlutun, nema sérstaklega standi á.
        • kynferðisbrotamálum og málum þar sem ákærði sætir farbanni skal hraða sérstaklega.
        • málsmeðferðartími verði innan við 3 mánuðir frá þingfestingu máls til dómsuppsögu.

3. gr.
Gildistaka

Tilkynning þessi gildir frá 10. september 2009. Jafnframt fellur úr gildi tilkynning dómstólaráðs nr. 1/2008.

 

 

 

 

Þannig samþykkt í dómstólaráði
10. september 2009


Helgi I. Jónsson, formaður
sign.