Sáttamiðlun fyrir dómi í einkamálum



1. gr
Héraðsdómari getur ákveðið að fram fari sáttamiðlun samkvæmt þeim reglum er hér fara á eftir.

Við ákvörðun um hvort sáttamiðlun skuli reynd skal litið til afstöðu málsaðila til sáttamiðlunar og þess hversu líklegt sé að sættir takist í máli. Jafnframt skal litið til fyrri sáttaumleitana í málinu og aðstöðu aðila að öðru leyti. Sáttamiðlun fer ekki fram gegn vilja málsaðila.


2. gr.
Einungis þeir héraðsdómarar sem lokið hafa námskeiði í sáttamiðlun leita sátta sem sáttamiðlarar samkvæmt reglum þessum.

Sá dómari sem fær máli úthlutað skal leita sátta í máli samkvæmt reglum þessum. Dómstjóri getur þó falið öðrum dómara að leita sátta í málinu. Um hæfi sáttamiðlara til að leita sátta fer eftir 5. gr. laga nr. 91/1991. Hafi annar hvor málsaðila uppi kröfu um að sáttamiðlari víki sæti vegna vanhæfis skal dómstjóri láta annan sáttamiðlara leita sátta.


3. gr.
Sáttafundir skulu haldnir utan dómsala. Skulu þeir haldnir fyrir luktum dyrum. Aðilar máls, og aðili sem bær er til að binda lögaðila, skulu sjálfir mæta á sáttafund. Sáttamiðlun getur farið fram þótt aðili ákveði að mæta án lögmanns. Sáttamiðlari ákveður framvindu sáttaumleitana í samráði við aðila málsins og lögmenn þeirra. Sáttamiðlari getur haldið sameiginlega fundi með aðilum málsins eða öðrum aðilanum.

Sáttamiðlari skal gæta þess að vera hlutlaus í máli og leitast við að draga fram þá hagsmuni aðila sem leitt geta til þess að máli verði lokið með sátt. Sáttamiðlari getur, ef sérstaklega stendur á, sett fram tillögu að niðurstöðu í máli og bent á atriði í málstað aðila sem máli geta skipt við niðurstöðu málsins.

Sáttamiðlari ákveður að hvaða marki sönnunarfærsla fer fram undir sáttameðferð máls. Gegn mótmælum annars hvors aðila fer sönnunarfærsla ekki fram undir sáttameðferð.

Sáttamiðlari skráir sáttafund í þingbók viðkomandi dómstóls. Í þingbók skal færa nafn viðkomandi dómstóls, hvar og hvenær fundur er haldinn, númer málsins, nafn sáttamiðlara, nöfn aðila og lögmanna þeirra og nöfn þeirra er mæta fyrir hönd aðila. Færa skal í þingbók nöfn vitna og annarra sérfræðinga sem mæta á sáttafundi.

Sátt skal færð í þingbók, nema aðilar máls verði ásáttir um annað.


4. gr.
Unnt að krefjast þess að sýnileg sönnunargögn, er fyrst koma fram á sáttafundi, verði lögð fram í máli komi til aðalmeðferðar í því.

Sáttamiðlari skal gæta þagnarskyldu um atriði sem fram koma á sáttafundi. Sáttamiðlari getur þó borið um hvort sátt sem undirrituð var á sáttafundi sé í samræmi við niðurstöðu á þeim fundi.


5. gr.
Ef ekki verður sátt í máli eftir reglum þessum verður máli fram haldið við viðkomandi dómstól. Leitast skal við að mál dragist ekki umfram það sem venjulegt er, náist ekki sátt í máli.

Ef ekki verður sátt í máli skal sáttamiðlari ekki fara með málið frekar, nema aðilar máls óski sérstaklega eftir því og sáttamiðlari lýsir sig því samþykkan.


6. gr.

Tilkynning þessi tekur þegar gildi.


Þannig samþykkt í Dómstólaráði
23. apríl 2007



Símon Sigvaldason
formaður Dómstólaráðs
sign.