Reglur um tilflutning dómara milli umdæma



1. gr.

1. Héraðsdómari á rétt á að skipta um starfsvettvang svo fljótt sem verða má eftir að hafa starfað í þrjú ár samfleytt við sama dómstól eða án fasts sætis við tiltekinn dómstól, enda standi ákvæði 5. mgr. 15. gr. laga nr. 15/1998 því ekki í vegi að fengið verði fyrir hann fast dómarasæti á öðrum vettvangi sbr. 39. gr. sömu laga.

2. Héraðsdómari skal beina skriflegri og rökstuddri ósk sinni um að skipta um starfsvettvang til Dómstólaráðs sem taka skal ákvörðun um erindið á grundvelli laga um dómstóla nr. 15/1998 og þessara reglna.

2. gr.

1. Dómstólaráð skal leitast við að verða við óskum þeirra héraðsdómara sem rétt eiga á flutningi samkvæmt 4. mgr. 15. gr. laga nr. 15/1998 svo fljótt sem auðið verður.

2. Ráðið skal a.m.k. árlega leita eftir óskum héraðsdómara um að skipta um starfsvettvang.

3. Flutningar dómara milli umdæma skulu að jafnaði fara fram í júlí nema aðstæður krefjist annars.

3. gr.
1. Áður en Dómstólaráð nýtir þær heimildir sem það hefur til þess að flytja héraðsdómara á milli umdæma skal ráðið kanna hvort einhver héraðsdómari er reiðubúinn að gegna dómarastarfi í því umdæmi sem dómara vantar um lengri eða skemmri tíma.

4. gr.

1. Heimild til að flytja héraðsdómara án samþykkis hans um 6 mánaða tíma samkvæmt 5. mgr. 15. gr. skal að jafnaði ekki beitt til þess að rýma fyrir þeim sem rétt á til flutnings nema í undantekningartilvikum.

2. Ákvæði þetta tekur ekki til þeirra héraðsdómara sem ekki eiga fast sæti við tiltekinn dómstól.

5. gr.

1. Þegar tveir eða fleiri héraðsdómarar, sem rétt eiga á að skipta um starfsvettvang, óska flutnings á sama héraðsdómstól og ekki er unnt að verða við óskum beggja skal Dómstólaráð byggja ákvörðum sína á neðanskráðum reglum:

a. Lengd starfstíma héraðsdómara á þeim stað sem óskað er flutnings frá eða í starfi héraðsdómara án fasts sætis við tiltekinn dómstól skal ráða. Upphaf starfstíma skal þó ekki miða við fyrri tíma en gildistöku nýrrar dómstólaskipunar 1. júlí 1992.

b. Héraðsdómari án fasts sætis við tiltekinn dómstól gengur fyrir þeim sem gegnt hefur fastri dómarastöðu hafi þeir gegnt stöðum sínum jafn lengi.

c. Skeri reglur í 1. eða 2. tölulið þessarar greinar ekki úr skal skipunaraldur í dómarastöðu að jafnaði ráða.

d. Skeri reglur í a-, b- eða c-lið þessar greinar ekki úr er Dómstólaráði m. a. rétt að byggja ákvörðun sína á eftirgreindum sjónarmiðum:
          * Prófaldri.
          * Lífaldri.
          * Fyrri óskum um flutning sem ekki hefur reynst unnt að verða við.
          * Heilsufarsástæðum.
          * Fjölskylduaðstæðum.

3. Héraðsdómara sem hagsmuni hefur af ákvörðun samkvæmt þessari grein skal gefinn kostur á að mæta á fund Dómstólaráðs til að koma að sjónarmiðum sínum eða senda ráðinu athugasemdir sínar áður en ákvörðun er tekin.

4. Dómstólaráði er ekki nauðsynlegt að láta rökstuðning fylgja ákvörðun sinni samkvæmt þessari grein en er skylt að rökstyðja ákvörðunina eftirá ef þess er krafist af hlutaðeigandi héraðsdómurum.

5 Einfaldan meirihluta greiddra atkvæða í Dómstólaráði þarf til ákvörðunar samkvæmt reglum þessum.

6. Reglur þessar taka ekki til ákvarðana Dómstólaráðs um starfsstöð þeirra þriggja héraðsdómara sem ekki eiga fast sæti við tiltekinn héraðsdómstól eða breytinga á starfsstöð þeirra eða verkefnum.

 

6. gr.

1. Eigi héraðsdómari sem ekki hefur átt fast sæti við tiltekinn héraðsdómstól kost á föstu sæti við tiltekinn dómstól en hafnar því hefur sú höfnun ekki áhrif á viðmiðunarstarfstíma samkvæmt 1. tl. 4. gr. reglna þessara.

2. Taki héraðsdómari hins vegar slíku boði sem um er rætt í 1. tl. þessarar greinar, þótt starfsvettvangurinn sé ekki í samræmi við óskir hans, skal upphaf starfstíma samkvæmt 1. tl. 4. gr. miðast við þann tíma þegar hann hóf störf á nýjum starfsvettvangi.

 

7. gr.

1. Dómstólaráð setur reglur þessar samkvæmt heimild í 4. mgr. 15. gr. laga nr. 15/1998.

 

Reykjavík, 16. júlí 1998.

 

Sigurður T. Magnússon

Freyr Ófeigsson                                                                  Friðgeir Björnsson
 

Snjólaug Ólafsdóttir                                                            Valtýr Sigurðsson