Samskiptareglur
dómstóla, ákæruvalds og verjenda
við meðferð stórra efnahagsbrotamála fyrir héraðsdómstólum.



Að samkomulagi hefur orðið með dómstólaráði, ríkissaksóknara, sérstökum saksóknara og Lögmannafélagi Íslands að til hliðsjónar verði hafðar eftirfarandi samskiptareglur við meðferð stórra efnahagsbrotamála fyrir héraðsdómstólum sem rekin eru á grundvelli laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008. Með reglum þessum er stefnt að skilvirkri meðferð þessara mála fyrir dómi.

 

1. Skjalaframlagning.

Með ákæru skal einungis senda til héraðsdóms þau skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn sem ákærandi telur augljósa þýðinga hafi við sönnunarfærslu viðkomandi máls. Yfirlit yfir öll gögn sem aflað hefur verið og ekki eru lögð fram með ákæru skal fylgja rannsóknargögnum. Á verjandi þess kost, nema lög mæli á annan veg, að kynna sér þessi gögn hjá sækjanda eftir þingfestingu málsins með það fyrir augum að gera kröfu um að eitthvert þeirra verði lagt fram í málinu.

2. Fyrirtaka í máli utan dómsalar.

Eftir að sakamál er þingfest fyrir dómi á dómari þess kost að hafa óformlegan undirbúningsfund í máli utan dómsalar og þá jafnan í húsnæði héraðsdóms. Ef líklegt þykir að aðalmeðferð máls standi dögum saman ber að stefna að slíkum fundi. Unnt er að boða til slíks fundar áður en verjandi ákærða leggur fram greinargerð í máli og eftir atvikum síðar, sé þess þörf. Skal dómari boða sækjanda, verjanda ákærða og lögmann bótakrefjanda til fundar með óformlegum hætti, s.s. með tölvupósti eða símtali. Ekki er þörf á því að ákærði sæki slíkan fund. Geta skal um fundinn í þingbók í máli. Dómari skal skrá niður á minnisblað meginatriði sem fram koma og senda sakflytjendum í kjölfarið.

Á fundi leitar dómari sjónarmiða sakflytjenda um atriði er varða framvindu og rekstur málsins. Séu mál mjög umfangsmikil er dómara rétt að beina til sakflytjenda að leggja fyrir dóminn yfirlit um þær megin málsástæður og þau sönnunargögn er mestu máli skipta fyrir sókn og vörn málsins. Jafnframt er dómara rétt að beina til sakflytjenda að taka saman lista yfir þau vitni sem muni gefa skýrslu í máli þar sem fram kemur stutt lýsing á því að hvaða sakarefnum spurningar til viðkomandi vitna beinist með tilvísun í rannsóknargögn málsins.

Á fundi skal leggja drög að aðalmeðferð málsins. Ákveða skal hvaða daga aðalmeðferð máls fer fram og hve lengi dag hvern aðalmeðferð stendur. Gæta skal að því að dagskrá verði ekki of þéttskipuð og að sakflytjendum gefist ráðrúm til að undirbúa aðalmeðferðina eftir því sem henni vindur fram. Ákveða skal lengd hádegisverðarhlés og annarra hléa. Þá skal á fundi rætt um notkun á tæknibúnaði sem nauðsynlegur kann að vera við aðalmeðferð málsins. Að því skal stefnt að sækjandi útvegi og annist uppsetningu á tæknibúnaði og skal sá búnaður standa verjanda til afnota.

3. Greinargerð verjanda.

Óski verjandi ákærða eftir því að leggja fram greinargerð í máli, sbr. 1. mgr. 165. gr. laga nr. 88/2008, skal honum að jafnaði veittur frestur í fjórar vikur til að leggja hana fram. Ef mál er mjög umfangsmikið getur verið æskilegt að sækjandi leggi fram yfirlit um atvik og einstök ákæruefni m.t.t. sönnunarfærslu í máli. Skal sækjanda að jafnaði veittur skammur frestur til þess að leggja fram slíkt yfirlit eftir að greinargerð verjanda ákærða hefur verið skilað.

 

4. Forflutningur máls.

Í forflutningi samkvæmt 2. mgr. 166. gr. laga nr. 88/2008 skulu sakflytjendur í stuttu máli gera grein fyrir ákæru og hvaða gögnum hún er studd. Stuttlega skal gera grein fyrir þeim lögfræðilegu álitaefnum sem til úrlausnar eru. Á það skal lögð áhersla að í forflutningi komi fram hver séu líkleg ágreiningsefni á milli sóknar og varnar í málinu.

 

5. Frávísunarkröfur.

Telji verjandi að tilefni sé til frávísunar máls skal hann leitast við að setja slíka kröfu fram einungis einu sinni og að koma þá að öllum þeim málsástæðum sem hann telur að leiða eigi til frávísunar.

 

6. Skýrslugjöf ákærða og vitna.

Eftir að ákærði hefur gefið skýrslu fyrir dómi skal dómari inna ákæruvald og verjanda eftir því hvort skýrslugjöfin gefi tilefni til þess að vitnalistar verði endurskoðaðir. Þess skal freistað að spyrja ákærða og vitni í samfellu um tiltekna kafla ef ákæra er kaflaskipt og tilgreina um hvaða kafla er að ræða hverju sinni.

Jafnframt skal leitast við að tryggja að sömu spurningar verði ekki ítrekað lagðar fyrir ákærða eða vitni að ástæðulausu.

 

7. Aðalmeðferð máls utan dómhúss.

Fari aðalmeðferð máls fram utan dómhúss skal tryggt að öryggisgæsla við og í dómsal sé fullnægjandi. Þá skal tryggt að gögn máls séu í öruggum vörslum bæði á meðan á aðalmeðferð máls stendur sem utan þess tíma sem aðalmeðferð er í gangi, kjósi dómurinn að gögnin séu geymd í dómsalnum milli þinghalda. Skal dómstóllinn leggja fyrir sakflytjendur tillögur sínar um tilhögun öryggisgæslunnar.

 

8. Gildissvið reglna þessara.

Samskiptareglum þessum er ætlað að stuðla að markvissri málsmeðferð í stórum efnahagsbrotamálum. Reglur þessar eru ekki bindandi og eru allar ákvarðanir á grundvelli þeirra háðar samkomulagi aðila.


 

Þannig samþykkt í dómstólaráði
13. janúar 2012



Símon Sigvaldason
formaður dómstólaráðs
sign.